Um verkefnið

Málþroski leikskólabarna er okkur höfundum hugleikinn og er stór hluti af starfi okkar sem þroskaþjálfar og sérkennslustjórar leikskóla. Með fjölbreyttum nemendahópi er það sífellt meiri áskorun að vinna að málþroska og efla íslensku hjá börnum á leikskólaaldri og á það við um allt starfsfólk leikskólanna.

Á vormánuðum 2021 hófst samtal okkar um mikilvægi þess að starfsfólk leikskóla hefði verkfæri sem utanumhald um málþroska barna og fékk það nafnið „Hvar stend ég?“.

Markmiðið var að efnið væri aðgengilegt og einfalt til að allt starfsfólk leikskólanna gæti nýtt sér það í vinnu með börnum.

Hugmyndin var að gera lista sem nýtast bæði faglærðum sem og ófaglærðum, hvort heldur sem er fyrir kennara sem hafa íslensku sem fyrsta mál eða ekki. Hugmyndin var að hafa einföld fylgi- og skráningargögn til að aðstoða starfsfólk við útfyllingar og utanumhald á færni barnanna. Í aldurslistanum má finna fróðleikskorn til starfsfólks með það að markmiði að efla það í starfi með börnum þegar kemur að málþroska þeirra.

Við fengum úthlutaðan styrk úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði fræðslusviðs Reykjanesbæjar. Kunnum við sjóðnum bestu þakkir fyrir.

Samstarfsaðilar okkar eru þau Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur, Oddný Svava Steinarsdóttir grafískur hönnuður og Ívar Kristinn Hallsson tölvunarfræðingur.

Þökkum við þeim kærlega fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf. Það efni sem við nýttum við gerð „Hvar stend ég?“ var safnað saman úr ýmsum áttum.

Myndirnar sem teiknaðar eru af myndlistakonunni Ingu Maríu Brynjarsdóttur, voru sóttar af heimasíðunni Orðaleikur.is og eru höfundarnir þær Rannveig Oddsdóttir og Íris Hrönn Kristinsdóttir.

Við nýttum Orðaforðalista Menntamálastofnunar sem Elsa Pálsdóttir tók saman (útg.2017) og bókina Snemmtæk íhlutun í hnotskurn – verkfærakista hugmynda eftir Ásthildi B. Snorradóttur og fleiri (útg. 2021). Málörvunarefnið Markviss málörvun – þjálfun hljóðkerfisvitundar eftir Helgu Friðfinnsdóttur, Sigrúnu Löve og Þorbjörgu Þóroddsdóttur (vefur mms.is) var nýtt við gerð listanna, auk þess sem við nýttum óútgefið efni frá Bryndísi Guðmundsdóttur talmeinafræðingi.

Höfundar

Berglind Elva Lúðvíksdóttir þroskaþjálfi/sérkennslustjóri leikskólanum Velli

Helga Andrésdóttir þroskaþjálfi/sérkennslustjóri leikskólanum Akri

Höfundar eru starfandi hjá Hjallastefnunni